Gagnrýna Samtök lánþega harðlega

mbl.is

Að gefnu tilefni vegna yfirlýsingar Samtaka lánþega vill SP-Fjármögnun taka það fram að fyrirtækið hefur boðið viðskiptavinum sínum upp á margvísleg úrræði til að lækka greiðslubyrði af erlendum bílalánum frá því í október 2008. SP-Fjármögnun telur það mjög óábyrga afstöðu hjá Samtökum lánþega að hvetja fólk til að borga ekki af lánum sínum. 

Yfir 10 þúsund viðskiptavinir fyrirtækisins hafa nýtt sér þessi úrræði, að því er segir í yfirlýsingu frá SP-Fjármögnun.

Nú síðast bauð SP-Fjármögnun lántakendum að lækka höfuðstól erlendra bílalána og breyta þeim í verðtryggð eða óverðtryggð íslensk lán. Höfuðstólslækkunin fer eftir myntsamsetningu lánsins og hvenær það var tekið. Samkvæmt útreikningum SP-Fjármögnunar lækka um 80% lána til einstaklinga um 20-40% en meðaltalslækkun er 28%.

Höfuðstólslækkun er álitin mjög góður kostur fyrir þá lántakendur sem telja að gengi krónunnar muni haldast svipað og verið hefur að undanförnu.

Þeir sem telja að íslenska krónan styrkist um 30-40% á næstunni geta nýtt sér greiðslujöfnunarleið SP-Fjármögnunar. Greiðslujöfnunin miðar að því að færa greiðslubyrði af gengistryggðum bílalánum í sama horf og hún var í maí 2008. Með þessu úrræði lækka mánaðarlegar greiðslur en greiðslutíminn lengist á móti. Mismunurinn sem verður á reglulegum greiðslum eftir greiðslujöfnun færist til hækkunar á höfuðstóli skuldarinnar.

SP-Fjármögnun hefur gefið það út að lántakendur, sem þegar hafa nýtt sér úrræði fyrirtækisins, fyrirgera ekki rétti sínum bjóðist þeim betri leiðir.

SP-Fjármögnun telur það mjög óábyrga afstöðu hjá Samtökum lánþega að hvetja fólk til að borga ekki af lánum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert