Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir miður að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra skuli enn á á ný ganga á bak orða sinna. Hann segir ráðherra hafi á fundi með dragnótamönnum lofað að fara frekar yfir málið með þeim áður en til ákvörðunar kæmi. Það loforð hafi verið svikið.
Þetta kemur fram á vef LÍÚ. Þar segir að Jón hafi í gær tilkynnt þá ákvörðun sína að banna dragnótaveiðar í sjö fjörðum næstu fimm árin. Lokunin taki gildi næstkomandi mánudag, 7. júní.
Friðrik segir á vef LÍÚ að með ákvörðun ráðherra sé alvarlega vegið að rekstrargrundvelli útgerða dragnótabáta sem stundað hafi veiðar í þessum fjörðum. Aðdragandinn sé einnig ótrúlega skammur. Enginn tími sé gefinn til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. „Tillögurnar voru fyrst lagðar fram í lok apríl. Óskað var eftir athugasemdum fyrir 20. maí en málið er síðan keyrt í gegn án þess að taka nokkurt tillit til þeirra.“