Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, gagnrýnir harðlega framsetningu á frétt Neytendasamtakanna, þar sem spurt er „Hvers vegna lækkar ekki vöruverð?“ „Innflutt matvæli hafa ekki hækkað sem nemur gengisbreytingum á þessum tíma,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Neytendasamtökin segja á heimasíðu sinni að það sé óviðunandi að innflytjendur og smásalar
hafi nýtt sér styrkingu krónunnar til að hækka álagningu. Samtökin segja
að það sé eðlileg krafa að styrkingin skili sér til neytenda í stað
þess að skila sér í hærri álagningu.
Andrés bendir á að vörugjöld hafi verið lögð á fjölmargar innfluttar vörur, t.d. stóran hluta drykkjarvara. Virðisaukaskattur hafi hækkað og verðbólga sé jafnframt umtalsverð í nágrannaríkjunum, þaðan sem vörurnar séu fluttar inn.
Þessar breytur séu ekki nefndar í frétt Neytendasamtakanna. Andrés segir framsetningu fréttarinnar ekki standast. Þar sé annars vegar skoðuð þróun gengis frá 12. nóvember 2009 til dagsins í dag og hins vegar sé verið að skoða þróun gengis krónunnar og verðs til neytenda á innfluttum vörum frá því í janúar 2008 til dagsins í dag. Andrés segir að menn verði að bera saman sama tímabil, en ekki sitthvort.
„Þetta er til þess fallið að rugla fólk í ríminu,“ segir hann og bætir við að samtökin miði við 12. nóvember því það sé þeim hagfellt.
„Ef Neytendasamtökin ætlast til að þau séu tekin trúanleg með svona framsetningu, þá verða þau að vanda sig meira. Aðalatriðið er það að innflutt matvara, hvernig sem á það er litið, hefur ekki hækkað neitt nálægt gengisáhrifunum. Þrátt fyrir það að á þessum tíma hafi orðið þessi kostnaðarbreyting fyrir bransa sem hefur óhjákvæmilega áhrif á verðlag.“