Séreignasparnaður skerðir lán

LÍN skerðir námslán í samræmi við úttektir séreignasparnaðar
LÍN skerðir námslán í samræmi við úttektir séreignasparnaðar mbl.is/Golli

Skerðing námslána vegna úttektar séreignasparnaðar á síðasta ári virðist koma námsmönnum í opna skjöldu nú þegar líður að útborgun lána vegna vorannar. Í tilkynningu sem Stúdentaráð Háskóla Íslands sendi frá sér í dag er athygli háskólanema vakin á því að fyrirframgreiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar séu skattskyldar tekjur sem komi til frádráttar á námslánum.

Hafi háskólanemar ekki talið slíkar greiðslur sem tekjur og þess vegna gefið Lánasjóði íslenskra námsmanna upp lægri árstekjur fyrir árið 2009 hafi lánsáætlun þeirra í byrjun annar hljóðað upp á hærri námslán en nýlega uppfærð áætlun geri, sem tekur mið af tekjuupplýsingum frá Ríkisskattstjóra úr framtali ársins 2009.

Þessar fyrirframgreiðslur munu einnig hafa áhrif á námslán næsta vetur að því leyti að námslán skerðast ef tekjur námsmanns hafi verið yfir 750.000 krónur árið áður.

Skylda að upplýsa um afleiðingar

Jens Fjalar Skaptason, formaður SHÍ, segir í samtali við mbl.is að Stúdentaráð hafi einungis nýlega gert sér grein fyrir því að greiðslur úr séreignasparnaði skertu námslán. Hann hafi fyrst heyrt af því þegar í fjölmiðlum birtist viðtal við háskólanema sem hefði lent í fjárhagserfiðleikum vegna skerðingarinnar.

Eflaust sé þetta raunin hjá fleiri háskólanemum sem hafi nýtt sér tímabundna opnun séreignasparnaðar, úrræði sem stjórnvöld hafi gripið til í fyrravor til að létta undir með fólki í fjárhagserfiðleikum. Í tilkynningu Stúdentaráðs segir að gera megi ráð fyrir að töluverður fjöldi námsmanna falli í þann hóp og hafi nýtt sér þetta úrræði.

„Það hefur greinilega enginn séð ástæðu til að fara í saumana á þessu þegar stjórnvöld kynntu þetta úrræði,“ segir Jens Fjalar og bætir við að þótt að LÍN vinni eftir reglum sem eru bundnar í lög sjóðsins, hafi Lánasjóðurinn brugðist. „Ég myndi segja að þær stofnanir, sem greiddu séreignasparnað út til námsmanna, og LÍN hafi klárlega brugðist, enda skylda þeirra að upplýsa fólk sem ekki veit hvernig kerfið virkar um hverjar afleiðingarnar séu.“

Einungis skerðing hjá námsmönnum

Haraldur Guðni Eiðsson, formaður stjórnar Lánasjóðsins, segir það auðvitað spursmál hvort vekja hefði mátt sérstaka athygli námsmanna á þessu atriði en LÍN hafi ekki breytt sínum vinnubrögðum á neinn hátt. „Við notum skilgreiningu ríkisskattstjóra um skattskyldar tekjur, sem er fullkomlega eðlilegt. Það er núna fyrst sem verið er að benda á að þetta ætti kannski að vera öðruvísi.“

Á heimasíðum bankanna kemur fram að útborgun séreignarsparnaðar kunni að hafa áhrif á úthlutun hjá LÍN. Þær muni hins vegar ekki skerða rétt til barnabóta, vaxtabóta, húsaleigubóta, atvinnuleysisbóta eða greiðslna frá Tryggingastofnun.

Aðspurður hvort að slík undanþága komi til greina fyrir lántakendur hjá LÍN segir Haraldur að það hafi aldrei verið rætt og ekki þótt ástæða til hingað til. Hann segir þó sennilegt að stjórn LÍN muni skoða þetta mál á næsta fundi, sem haldinn verður um miðjan mánuðinn.

„Við munum ræða þetta á næsta stjórnarfundi. Ég held að sé alveg hægt að færa rök bæði fyrir því að telja þessar greiðslur til tekna og telja þær ekki til tekna. Við verðum bara að meta hvað við teljum  rétt að gera í þessu samhengi.“

Formaður Stúdentaráðs gerði sér ekki grein fyrir skerðingunni frekar en …
Formaður Stúdentaráðs gerði sér ekki grein fyrir skerðingunni frekar en margir aðrir námsmenn mbl.is
Stjórnarformaður LÍN býst við að málið verði tekið fyrir á …
Stjórnarformaður LÍN býst við að málið verði tekið fyrir á stjórnarfundi Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert