Viðamiklar aðgerðir lögreglu

Lögregla á Vesturlandi hefur staðið í ströngu í dag
Lögregla á Vesturlandi hefur staðið í ströngu í dag mbl.is/Þorkell

Lögreglumenn frá Akranesi og Borgarnesi hafa staðið í ströngu í dag og hafa flestallir lögreglumenn frá báðum stöðum verið við störf.  Bíll frá sérsveit ríkislögreglustjóra tók að sér eftirlit og útköll í umdæmunum um tíma í dag svo heimamenn gætu sinnt þeim verkefnum sem leysa þurfti.

Fjórir í haldi vegna innbrota í sumarbústaði

Í gærkvöldi var maður handtekinn vegna gruns um innbrot í sumarbústað í nágrenni Akraness.  Þrír til viðbótar voru svo handteknir vegna sama máls í dag.  Við yfirheyrslur vaknaði grunur um að mennirnir væru einnig viðriðnir innbrot og skemmdarverk í fleiri bústöðum í Borgarfirði.  Eru mennirnir grunaðir um innbrot í liðlega 30 sumarbústaði.  Einn, sá er handtekinn var í gær, var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á næsta mánudag á tíunda tímanum í kvöld. 

Kannabisræktun á Akranesi

Um miðjan dag fóru þessir sömu lögreglumenn  í húsleit á Akranesi í þeim tilgangi að stöðva kannabisræktun sem grunur lék á að væri í gangi.  Við leitina fundust 6 kannabisplöntur sem voru vel á veg komnar og u.þ.b 20 gr. af öðrum fíkniefnum.  Tollverðir með leitarhunda aðstoðuðu lögregluna við leitina.

Skemmdarverk og hiti í mönnum

Þegar liðið var á kvöld og menn héldu nú að um væri að hægjast var tilkynnt um að stórum blómapotti hefði verið kastað inn um glugga á íbúðarhúsi.  Tveir lögreglumenn fóru á vettvang.  Þegar þangað kom reyndist mikill hiti í fólki og óskuðu þeir eftir fleiri lögreglumönnum á vettvang.  Tveir til viðbótar fóru til aðstoðar og var farið í að skakka leika. 

Lögreglubifreið stolið í miðju útkalli

Urðu lögreglumenn þess allt í einu varir að öðrum lögreglubílnum var ekið burtu og varð ljóst að einhver hafði einfaldlega stolið honum.  Var honum að sjálfsögðu snarlega veitt eftirför og stöðvaði hann aksturinn eftir nokkur hundruð metra.  Sá er sat undir stýri var handtekinn og reyndist bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert