Fréttaskýring: 2,2 milljónir fara í 1,4 milljónir

mbl.is

Fólk sem tók bílalán í erlendri mynt í maí 2007 og skuldar í dag 2,2 milljónir myndi samkvæmt frumvarpi félagsmálaráðherra um lækkun bílalána fá 37% lækkun höfuðstóls. Lánið færi því niður í 1,4 milljónir. Lán sem tekið var í september 2008 og stendur nú í 2,2 milljónum færi niður í 1,9 milljónir.

Frumvarp um lækkun höfuðstóls bílalána er nú til umfjöllunar í þinginu. Frumvarpið kveður á um að eftirstöðvar bílalána einstaklinga verði bakreiknaðar að lántökudegi með tilliti til gengisþróunar og síðan framreiknaðar með tilliti til verðlags að viðbættu 15% álagi.

Fyrir rúmlega viku kynnti SP-fjármögnun úræði sem byggir á sams konar lækkun á höfuðstól lánanna og frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir. SP-fjármögnun gengur þó lengra í tveimur atriðum. Það er ekki hámark á þeirri lækkun sem hægt er að fá, en í frumvarpi ráðherra getur lækkun höfuðstóls mest verið 3 milljónir. SP gerir einnig ráð fyrir að lækkunin geti verið afturvirk, en frumvarpið nær eingöngu til lána sem tekin voru fyrir 7. október 2008. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að fólk sem t.d. seldi bílinn á árinu 2009 og gerði upp sín lán eigi rétt á leiðréttingu. Fólk í þessari stöðu getur fengið lánin endurreiknuð hjá SP-fjármögnun. Haraldur Ólafsson, hjá SP-fjármögnun, segir að mikil viðbrögð hafi orðið við útspili fyrirtækisins. Hann skiptir þeim sem ætla að taka tilboði fyrirtækisins í fjóra hópa. Í fyrsta lagi þeir sem eru að selja bíla. Í öðru lagi fólk sem á pening og er í aðstöðu til að borga upp bílalánið eftir að búið er að lækka höfuðstólinn. Í þriðja lagi er fólk sem ekki hefur trú á íslensku krónunni og ákveður af þeim sökum að skipta úr erlendu láni yfir í íslenskt lán. Í fjórða lagi er hópur sem hefur trú á að krónan eigi eftir að styrkjast hratt á næstu misserum og telur hagstæðara að bíða eftir þessari styrkingu en að skipta í íslenskt lán. Haraldur segir að þetta fólk geti tekið greiðslujöfnun sem þýðir minni greiðslubyrði en lengri lánstími. Höfuðstóllinn lækki hins vegar og lánstíminn styttist ef krónan styrkist.

Ekki hægt að ganga lengra

Þau sjónarmið hafa heyrst að ekki sé gengið nægilega langt í frumvarpi ráðherra. Ólafur bendir á að ef gengið sé lengra komi upp sú staða að þeir sem tóku erlend lán verði betur settir en þeir sem tóku verðtryggt lán í krónum. Það geti ekki verið markmið með aðgerðunum að þeir sem tóku meiri áhættu verði betur settir en þeir sem tóku minni áhættu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert