„Við erum mjög ánægð með þessar fyrstu vísbendingar um að átakið hafi slegið í gegn,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Samkvæmt tölum sem teknar voru saman í kvöld hafa 1,6 milljón tölvunotenda halað niður vefsíðunni www.inspiredbyiceland.com og sent efni af henni til vina, kunningja og vandamanna.
Átakið hefur fengið 5 milljón snertingar á Twitter og munar þar mest um Twitter síður Bjarkar, sem 900.000 notendur fylgjast með, og Yoko Ono, sem tvítaði tvisvar um Inspired by Iceland í dag en 900.000 manns fylgjast með síðunni hennar.
Myndböndum af síðu átaksins hefur verið hlaðið niður 660.000 sinnum og þar af hefur nýja „Jungle Drum“ myndbandinu verið hlaðið niður 440.000 sinnum, en það var einungis sett inn á síðuna í gærkvöldi.
Þá hefur vinafjöldi Facebook síðu átaksins tvöfaldast síðastliðinn sólarhring. Svanhildur segir erlenda fjölmiðla hafa sýnt átakinu mikinn áhuga og þyki þessi gjörningur einstakur og með ólíkindum hversu mikil þátttaka hafi verið.
„Átakinu er þó alls ekki lokið, við höldum áfram að setja inn ný myndbönd og spennandi efni svo við hvetjum fólk til að halda áfram að fylgjast með síðunni og senda efni áfram.“