Fjármálaráðherra Hollands sagði í fréttum Útvarpsins, að dómsmálaleiðin komi til greina í Icesave-deilunni. Hún hafi þó í raun verið farin með þeirri niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem sjónarmiðum Íslands hafi verið hafnað og fallist á að Íslendingum beri að greiða lágmarkstryggingar vegna Icesave að fullu.
Jan Kees de Jager, fjármálaráðherra Hollands, svaraði spurningum hollensks útvarpsmanns fyrir fréttastofu Útvarpsins í dag. Sagði hann, að hollensk stjórnvöld bíði í raun eftir tilboði eða viðbrögðum frá Íslendingum við tilboði sem Bretar og Hollendingar lögðu fram í vetur. Sagðist hann búast við niðurstöðu fljótlega.