Hæstiréttur hefur dæmt 32 ára gamla konu, Catalinu Mikue Ncogo í þriggja og hálfs árs fangelsi. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi hana í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir hórmang og brot gegn fíkniefnalöggjöfinni í byrjun desember en Hæstiréttur þyngdi dóminn um eitt ár.
Í dómi héraðsdóms kom fram að Catalina hafi staðið að innflutningi á um fjögur hundruð grömmum af kókaíni sem aðrir voru fengnir til að flytja til landsins. Hún var hins vegar sýknuð í desember af ákæru um mansal. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu og segir, að ekki hafi verið hægt að endurmeta mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar stúlku, sem bar vitni í málinu.
Hæstiréttur segir sannað, að Catalina hafi haft viðurværi sitt af vændi þriggja annarra kvenna og haft milligöngu um að fjöldi manna hefði samræði eða önnur kynferðismök við þær gegn greiðslu, en Catalina leigði húnsnæði undir vændisstarfsemina.
Þá hafi Catalina einnig látið taka myndir af konunum og auglýst vændi þeirra opinberlega á vefsíðum og óskað eftir kynmökum annarra við þær gegn greiðslu.
Við ákvörðun refsingar leit Hæstiréttur til þess að Catalina hefði verið sakfelld fyrir að hafa haft atvinnu af umfangsmikilli vændisstarfsemi um nokkuð langt skeið og staðið að innflutningi á töluverðu magni af hættulegum fíkniefnum. Þá væri brotavilji hennar einbeittur.
Skömmu eftir að Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í þessu máli í byrjun desember á síðasta ári var Catalina handtekin á ný, einnig vegna gruns um mansal og umfangsmikla vændisstarfsemi. Hefur hún setið í gæsluvarðhaldi síðan en dómur í því máli hefur ekki verið kveðinn upp.