Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknar og fulltrúi í efnahags- og skattanefnd hefur óskað eftir því að Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, ásamt ráðuneytisstjóra, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, og ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis verði kallaðir fyrir nefndina vegna launamála seðlabankastjóra.
Munu þeir koma fyrir þingnefndina á föstudag og vonast Birkir til að svör þeirra muni varpa ljósi á hvaðan fyrirheit um hærri laun komu.
„Það þykir ljóst að einhver hafi gefið seðlabankastjóra fyrirheit um að laun hans yrðu ekki skert, þrátt fyrir stefnu stjórnarinnar um að enginn hafi hærri laun en forsætisráðherra,“ segir Birkir Jón.
Segir Birkir að nefndin hafi ekki fengið svör frá forsætisráðherra eða annars staðar hver gaf þessi fyrirheit.