Nauðsynlegt er að hækka gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur allverulega. Tæki hækkunin til allra miðla Orkuveitunnar að undanskyldu kalda vatninu. Það er verður í höndum nýrrar stjórnar að taka ákvörðun um hækkanirnar en nái þær ekki fram að ganga mun vandi Orkuveitunnar aukast verulega segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur setti sér markmið um arðsemi að einstökum miðlum sem samþykkt voru samhljóða í desember á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að þessum markmiðum verði náð á næstu árum.
Gjaldskrá vatnsveitunnar hefur ekki hækkað samhliða vísitölu að undanskyldu kalda vatninu sem hefur hækkað árlega í samræmi við hækkun vísitölu.
„Í mínum huga verður gjaldskráin að hækka, hún hefur ekki hækkað í mörg ár. Við höfum reynt að fresta hækkunum eins lengi og hægt er en fyrr en seinna kemur að því að hún verði að hækka“, segir Hjörleifur og bætir við að það muni þó ekki gerast í einu stökki.
„Gjaldskrá okkar hefur ekkert hækkað á undaförnum árum t.d. hefur gjaldskrá okkar á rafmagni ekki hækkað síðan árið 2005. Almennt hefur verð okkar á rafmagni og heitu vatni lækkað um 30 til 40 prósent samanborið við vísitölu," segir Hjörleifur.
Ástæða þess að þetta kemur ekki fram fyrr en nú eftir kosningar segir Hjörleifur vera að fyrirspurn þessa efnis hafi borist á síðasta stjórnarfundi, sem var fyrir kosningar, og því komi svarið nú.