Sterkar vísbendingar eru um að markaðurinn fyrir aflaheimildir sé skilvirkur. Kemur það fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Hagfræðistofnun bendir á að stofnanarammi markaðarins er ágætlega til þess fallinn að skapa skilvirkan markað. Viðskiptakostnaður er lágur, upplýsingaflæði virkt og auðvelt að fá tilboð. Þá eru viðskipti með aflamark lífleg og hafa farið vaxandi. Þá er vakin athygli á því að verð hefur verið stöðugt og markaðurinn hagað sér í takt við það sem vænta megi.