Skyndilega er eins og ég búi í stórborg. Mér finnast þetta undarleg vinnubrögð af hálfu Íslandspósts því hér á Siglufirði, þar sem búa rétt um 1.200 manns, þekkist fólk og hingað til að minnsta kosti hefur verið óþarfi að merkja póstinn mjög nákvæmlega. Í raun og veru skapar það hættu á misskilningi,“ segir Margrét Þórðardóttir á Siglufirði. Þar í bæ er hún best þekkt sem Maddý Þórðar sem býr í Húsinu á túninu, en svo er íbúðarhús hennar sem stendur við Háveg jafnan kallað.
Í fyrri viku fékk Margrét sendingu að sunnan sem var hefðinni samkvæmt merkt Maddýju í Húsinu á túninu. Bréfið var, í krafti 32. greinar póstlaga, opnað af óskiladeild Íslandspósts og í framhaldinu hringt í Margrét og hún spurð hvort hún væri umrædd Maddý, sem hún játti. Póststarfsfólk breytti þá utanáskriftinni og samkvæmt henni fór bréfið sína leið.
„Ég hef oft fengið póst þar sem reyndar bara stóð Maddý, Húsinu á túninu, Siglufirði, Iceland. Ekkert póstnúmer. Á bréfalúgunni minni stendur bæði Margrét St. Þórðardóttir og Maddý Þórðar. Fyrir nokkrum misserum fengu allir hér í bæ bréf um að merkja bréfalúgurnar sínar og það gerði ég samviskusamlega. Ég er alveg sannfærð um að ef bréfið hefði verið sent beint til Siglufjarðar þá hefði pósturinn minn hér ekki verið í neinum vandræðum með að vita hver átti það. Allir vita hver Maddý Þórðar er en sennilega eru fleiri sem ekki vita hver Margrét St. Þórðardóttir er,“ segir hún og hlær.
Margrét rifjar raunar upp að á því níu ára tímabili sem hún bjó í Danmörku hafi hún oft fengið bréf sem voru merkt Margrét St. Þórðardóttir, Danmörku. „Danski pósturinn hafði ekki fyrir því að opna bréfin, sem ég fékk athugasemdalaust. Jafnvel þó að stæði bara Maddý Þórðar, Sommersted, Danmörk. Á Íslandi eru önnur vinnubrögð sem mér finnast miður. Það er eins og verið sé að taka sálina úr öllu og starfsfólk póstsins er að hengja sig í reglugerðir um að utanáskrift á bréfum skuli vera með fullu nafni og heimilisfangi. Við eigum eftir fremsta megni að halda í þessi séríslensku einkenni sem eru enn til staðar, einkum í dreifbýlinu. Þau gefa lífinu lit,“ segir Maddý í Húsinu.
Anna Katrín segir viðskiptavini hafa ýmsar séróskir til dæmis um hvert þeim berist bréf. Sumir vilji og semji um að sendingu dagsins sé stungið inn um eldhúsgluggann og aðrir vilji bréfin í blómapottinn. Bréfberar hafi eftir megni reynt að sinna þessum séróskum. Sá hængur sé hins vegar á að þegar afleysingafólk sinni dreifingu hlaupi snurða á þráðinn. Því hafi verið gerð gangskör að því að allur póstur sé vel merktur og skuli settur í vel merkta bréfalúgu eða -kassa, eða eins og ýtrustu reglur og gæðastaðlar kveða á um. Þetta sé nauðsynlegt enda flytji Íslandspóstur á ári hverju um hundrað milljónir póstsendinga og ekkert megi út af bera.