Hæstiréttur hefur dæmt atvinnubílstjóra á þrítugsaldri í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að brjóta ítrekað ákvæði laga um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Maðurinn var í héraðsdómi dæmdur í 2,1 milljónar króna sekt fyrir brotið.
Brotin voru framin frá tímabilinu frá ágúst 2007 til janúar 2008. Bílstjórinn bar því m.a. við, að hann hefði ekki kunnað að stilla ökurita bílsins á hvíld þar sem honum hefðu ekki fylgt íslenskar leiðbeiningar þegar hann fékk hann afhentan með bílnum vorið 2007.
Héraðsdómur sagði hins vegar að manninum ætti að vera fullkunnugt um að honum beri að kynna sér umferðarlög og aðrar reglur samkvæmt þeim. Hann hafi því borið ábyrgð á því að nota ökuritann eins og reglur buðu.
Hæstiréttur segir í dómi sínum, að maðurinn sé sakfelldur fyrir fjölmörg brot sem varða umferðaröryggi. Fram kom í héraðsdómi, að maðurinn hefði ítrekað ekið þungaflutningabifreið dögum saman án þess að taka sér lögboðna hvíld. Með þeirri háttsemi hafi hann aukið á þá hættu sem stór og þung flutningatæki skapi á vegum úti með því að aka allt upp í rúmlega ellefu klukkustundir samfleytt án hvíldar.