Ekki liggur fyrir nákvæm dagsetning á því hvenær embætti sérstaks saksóknara gefur út fyrstu ákærurnar, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Hann vill heldur ekki gefa upp hve mörgum málum muni ljúka með ákæru á næstunni hjá embættinu. Enda samræmist það ekki störfum embættisins að gefa upplýsingar um hvort mál endi með ákæru eður ei áður en málum lýkur hjá embættinu. Jafnframt ekki eðlilegt að þeir sem eiga yfir höfði sér ákæru frétti slíkt í gegnum fjölmiðla.
Var þess vænst að hægt væri að gefa út fyrstu ákærurnar í lok maí en rannsókn á Kaupþingi hefur tafið vinnslu þeirra mála. Ólafur Þór segist hins vegar vonast til þess að hægt verði að ljúka einhverjum málum á næstunni.
Ekkert hefur enn frést af Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings banka, en alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur honum í tengslum við meint brot hans og annarra lykilsstjórnenda Kaupþings.
Starfsmenn sérstaks saksóknara gerðu í nóvember í fyrra húsleitir í höfuðstöðvum Byrs og MP Banka, vegna gruns um brot á almennum hegningarlögum um, auðgunarbrot og umboðssvik.
Fjármálaeftirlitið vísaði á sínum tíma til sérstaks saksóknara máli vegna láns Byrs til eignarhaldsfélagsins Exeter Holdings. Lánin voru veitt í október og desember 2008 og hljóðuðu samtals upp á 1,1 milljarð króna. Voru þau veitt til þess að kaupa 1,8% stofnfjárhlut í Byr á yfirverði. Ekkert hefur verið greitt af lánunum.
Á þessum tíma var markaður með stofnfjárbréf lokaður og verð bréfanna hafði lækkað mikið. Seljendur bréfanna voru meðal annarra MP banki og tveir stjórnarmenn í Byr, þeir Jón Þorsteinn Jónsson og Birgir Ómar Haraldsson. MP banki hafði eignast sín bréf m.a. eftir veðkall á eignarhaldsfélag í eigu Ragnars Z. Guðjónssonar, sparisjóðsstjóra Byrs, og annarra stjórnenda sparisjóðsins.
Skömmu áður en Byr sparisjóður var yfirtekinn af ríkinu vísaði stjórn Byrs sparisjóðs málum tengdum Lífsvali til sérstaks saksóknara. Það er því mun styttra á veg komið heldur en Exeter málið en að sögn Ólafs Þórs er Exeter málið töluvert langt á veg komið enda hófst það töluvert fyrr en Lífsvals málið.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrr á árinu á Landsbankinn 19% hlut í Lífsvali, Ingvar Karlsson, Ólafur Wernersson og Guðmundur Birgisson eru einnig stórir hluthafar en minni hlut eiga þeir Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrum stjórnarformaður Byrs sparisjóðs og Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals. Hann er fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðurlands og er eiginmaður Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur sem hefur sagt af sér sem oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eftir slæmt gengi í kosningunum um síðustu helgi.
Lífsval átti í janúar 45 jarðir á landinu og er haft eftir Jóni Björnssyni í Morgunblaðinu þann 21. janúar sl. að Lífsval rekur þrjú kúabú og mjólkurkvóti félagsins er um 1,2 milljónir lítra sem er um 1% af öllum mjólkurkvóta í landinu.
Félagið rekur auk þess tvö sauðfjárbú. Jón segir að félagið hafi selt jarðir frá því að félagið var stofnað, en þó ekki í miklum mæli. Lífsval ehf. er stofnað árið 2002, en félagið hefur ekki enn skilað hagnaði.