„Þetta er það sem við gerum best“

Fólk var hvatt til að kynna Ísland í dag. Hér …
Fólk var hvatt til að kynna Ísland í dag. Hér sést tindur Snæfellsjökuls teygja sig tignarlega upp fyrir snjóalagið. Rax / Ragnar Axelsson

„Við erum feikilega ánægð með hve vel kynningarátakið fer af stað og þau jákvæðu viðbrögð sem myndbandið fær á netinu,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

Sérstök áhersla var lögð á að landsmenn legðust á eitt við að kynna landið milli klukkan 13 og 14 í dag. Þetta er hluti af kynningarátakinu "Inspired by Iceland" sem formlega var hleypt af stokkunum í morgun. Myndbandið sem Svanhildur vitnar til má sjá hér á heimasíðu átaksins.

Allt lítur út fyrir það að átakið muni skila tilætluðum árangri og rúmlega það en um 340.000 netnotendur um allan heim höfðu heimsótt heimasíðu átaksins klukkan 13 í dag.

Svanhildur segist ekki þekkja neina fyrirmynd að framkvæmd átaksins. „Þetta er algjörlega einstakt. Með þessu gerum við það sem við gerum best, stöndum saman þegar á móti blæs“. Allir sem áhuga hafi séu þannig virkjaðir til að kynna landið og hver maður skipti máli.

Átakið hefur þegar  ratað í erlenda fjölmiðla í dag og má meðal annars lesa um „Íslands-stundina“ hér á fréttasíðu breska ríkisútvarpsins, BBC.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka