Rekstur Hellisheiðarvirkjunar verður stöðvaður á sunnudag og stendur rekstrarstöðvunin yfir í tvær vikur. Ástæða hennar eru breytingar á gufuveitu virkjunarinnar, m.a. vegna tenginga við nýja varmastöð sem tekin verður í notkun undir lok ársins. Gufa frá virkjunarsvæðinu verður meiri meðan á rekstrarstöðvuninni stendur og ferðafólk er beðið að sýna sérstaka aðgát.
Hellisheiðarvirkjun fær gufu frá tugum borhola í grennd við virkjunina. Við það að allar holurnar eru aftengdar virkjuninni eykst gufustreymi frá þeim sjálfum. Sýnileiki gufunnar veltur talsvert á lofthita og öðrum veðurskilyrðum, en reikna má með því að gufustrókarnir verði mun sýnilegri frá höfuðborgarsvæðinu en fram til þessa.
Umferð um framkvæmdasvæði sætir takmörkunum af öryggisástæðum. Meðan á rekstrarstöðvuninni stendur er rétt að benda á þrjár hættur sem henni fylgja.
Umferð vinnuvéla verður óvenjulega mikil um allt framkvæmdasvæðið.
Blásandi borholur teljast til framkvæmdasvæðis og er almenn umferð við þær ekki leyfð. Sumar borholur eru vatnsmiklar og í blæstri rennur sjóðheitt vatn í opnar svelgholur. Settir eru upp varúðarborðar en þær geta þó verið varasamar.
Gufu frá blásandi borholum getur slegið niður í grennd við þær og skyggni orðið mjög lítið, eins og í niðaþoku.
Orkuveita Reykjavíkur leitast við að hafa landareignir fyrirtækisins á Hengilssvæðinu sem aðgengilegastar og hefur í því skyni lagt á annað hundrað kílómetra af göngustígum um svæðið. Leitast verður við að halda þeim leiðum opnum sem fyrirtæki í ferðaþjónustu nýta sér á svæðinu, að því er segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.