Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, segir það mikil gleðitíðindi að þorskstofninn sé að stækka. „Þetta sýnir að Hafrannsóknarstofnun er á réttri leið,“ segir Atli í samtali við mbl.is.
Reglan um 20% aflamark sé að skila árangri. „Ég hef fulla trú á því að þorskstofninn sé á réttri leið,“ segir Atli.
Þá séu það ekki síður ánægjuleg tíðindi að stofn þorsks sem sé 10 ára og eldri sé að stækka. „Það hefur gríðarlega mikið að segja, því það eru öflugustu hrygningarárgangarnir,“ segir Atli. Teikn séu á lofti að aldursdreifingin sé orðin önnur og því beri að fagna.
„Það segir manni að ráðgjöf Hafró að þessu leyti er rétt. Hún verður var við stærri fisk í sjónum. Það er árangur af fiskveiðistjórnuninni.“
Sjávarútvegsnefnd Alþingis mun koma saman til fundar á mánudag til að ræða veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.