Rétt ákvörðun að draga úr veiðum 2007

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.

Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir jákvæðar fréttir vera í þeim tölum sem Hafrannsóknarstofnun kynnti í dag um stærð þorskstofnsins. Þetta sýni að rétt hafi verið að draga mjög úr veiðum árið 2007.

„Ég tel að þetta sé klárlega afleiðing af erfiðri ákvörðun sem ég tók á árinu 2007 þegar ákveðið var að skera niður þorskaflann mjög mikið. Þá var staðan sú að viðmiðunarstofninn og hrygningarstofninn voru miklu minni en núna og framundan frekari niðurskurður nema gripið yrði í taumana. Það er ljóst af þessum tölum sem við sjáum þarna að viðmiðunarstofninn í þorskinum, það er fjögurra ára fiskur og eldri, hefur stækkað um þriðjung miðað við það sem ætla má að hann verði á næsta ári. Hrygningarstofninn stækkar með sama hætti um 50%.  Þannig að það er ljóst mál að við erum að sjá verulegan árangur af erfiðum ákvörðunum síðustu árin," segir Einar.

Hann segir að í sögulegu samhengi verði að fara allt aftur til ársins 1989 til að sjá stofnstærð þorsk jafn stóra. Þá var tillaga Hafró um heildarkvóta upp á 300 þúsund tonn. 

„Hrygningarstofninn er nú kominn í þrjú hundruð þúsund tonn og fer stækkandi. Slíkar tölur höfum við einfaldlega ekki séð, nema með tveimur undantekningum, frá árinu 1970. Þannig að ég vil að öllu þessu samanlögðu segja að þetta eru jákvæð tíðindi," segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert