Strandsiglingar álitlegur kostur fyrir þolinmóða

Strandsiglingar verða athugaðar á næstunni.
Strandsiglingar verða athugaðar á næstunni. mbl.is/Sverrir

Strandsiglingar eru álitlegur kostur og henta „þolinmóðum" vörum ágætlega. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um hagkvæmni strandsiglinga sem kynnt var í dag. Nægjanlegt flutningsmagn virðist vera til staðar, talsverður áhugi er fyrir hendi meðal flutningskaupenda og hægt er að bjóða flutningsgjöld sem eru samkeppnishæf við landflutninga.

Byggingarvörur, iðnaðarvörur, hráefni, fiskafurðir og vörur sem bíða útflutnings eru þær vörur sem flokksast sem „þolinmóðar“, samkvæmt skýrslunni.  Aðrar vörur (dagvara, rekstrarvörur, ferskvara oþh.) munu ávallt krefjast þess hraða og sveigjanleika í flutningum sem landflutningar bjóða.


Skoðaðir voru þrír valkostir siglingaráætlunar í skýrslunni og þeir bornir saman. Helst kemur til greina áætlun sem miðast við siglingar milli Reykjavíkur, Ísafjarðar og Akureyrar auk Sauðárkróks og Patreksfjarðar/Bíldudals. Gert er ráð fyrir að Akureyri sé heimahöfn skipsins þar sem skipið bíður um helgar.

Heildarkostnaður skipsins og reksturs tengdum því er áætlaður 884 milljónir króna á ári. Skipaleiga er tiltölulega lág í dag vegna mikils framboðs skipa af þeirri stærð sem miðað er við. Óvissa er um þróun olíukostnaðar.

Til að standa undir þessum kostnaði þurfa tekjur skipsins því að vera 884 milljónir króna á ári eða um 123 þúsund krónur pr. 40 feta einingu að meðaltali. Flutningsgjald landflutningsaðila til Vestfjarða er í dag um 240 þúsund krónur og til Akureyrar um 180 þúsund krónur. Gera má ráð fyrir viðbrögðum landflutningsaðila til lækkunar á flutningsgjöldum í kjölfar samkeppni frá strandferðaskipinu.

Ríkið verður af nokkrum tekjum af umferð flutningabíla ef strandflutningar fara í gang. Gera má ráð fyrir að ef 8000 ferðir færist yfir á sjó og meðalferð er um 400 km, þá minnkar akstur sem nemur um 3,2 milljónum km á ári. Miðað við 50 lítra eyðslu á 100 km og um 55 kr. í olíugjald af hverjum lítra, þá tapar ríkið olíugjaldstekjum sem nema um 88 milljónum káona á ári. Ef eyðslan er 63 ltr/100km þá tapar ríkið um 111 milljónum króna á ári. Slit á vegum og viðhaldskostnaður vega minnkar líklega um 100-200 milljónir króna á ári.

Öryggi almennings á vegum eykst væntanlega vegna minni aksturs stórra bíla sem nemur um 3,2 milljónum kílómetra á ári. Svifryksmengun á vegsvæðum minnkar.

Olíunotkun eykst lítillega með strandflutningum miðað við landflutninga. Skipið notar rúmlega 2 milljónir lítra af svartolíu á ári meðan um 1,6 milljón lítra af dísilolíu sparast vegna minni aksturs vöruflutningabíla á ári sé miðað við 50 ltr. eyðslu pr 100 km. akstur. Ef meðaleyðsla bílanna er 63 ltr/100 km þá sparast um 2 milljónir lítra af dísilolíu á ári.
18.
Gera má ráð fyrir að í kjölfar strandflutninga fækki störfum vörubílstjóra en á móti fá um 14 manns fá störf við strandflutningana, þar af um 9 á skipinu og 5 í landi á skrifstofu og við afgreiðslu skipsins. Auk þess skapast tekjur og störf í höfnum við afgreiðslu skipa og umsjón hafnarmannvirkja.

Stjórnvöld víða um heim vinna að því að færa flutninga af vegum yfir á sjó, fljótabáta og járnbrautir. Bent hefur verið á að raunverulegur samfélagslegur kostnaður við landflutninga sé oft vanmetinn hvað varðar slit á vegum, slysahættu, mengun og önnur umhverfisáhrif. Rannsóknir sýna að slit vega vegna aksturs eins fullhlaðins vöruflutningabíls sé sambærilegur við akstur um 9000 einkabíla. Líklegt er að stjórnvöld muni í framtíðinni krefjast þess að þessi kostnaður komi fram í flutningsgjöldum.

Gera má ráð fyrir að ef strandsiglingar hefjast og flutningsmagn flyst af vegum á sjó, muni flutningsgjöld í landflutningum hækka með minnkandi magni og minni stærðarhagkvæmni.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert