Ekki stefnir í að öskufjúkið á höfuðborgarsvæðinu muni raska Flugdeginum svokallaða, sem haldinn er á Reykjavíkurflugvelli í dag. Samkvæmt upplýsingum úr flugturninum í Reykjavík eru öll flug á áætlun í dag og engin truflun orðið af öskunni, sem var mun meiri í gær en í dag.
Flugdagurinn er haldin af Flugmálafélagi Íslands í samvinnu við Icelandair og Isavia. Sýningin fer fram í dag milli kl. 12-16 og er aðgangur ókeypis fyrir alla. Flugvélar af öllum stærðum og gerðum verða til sýnis og þá verður flugsýning klukkan 13-15. Sýnt verður svifflug, flugmódelflug, listflug, hópflug og lágflug. Landhelgisgæslan verður með sýningaratriði og sett verður á keppni á milli bíls og flugvélar. Þá mun farþegaþota frá Icelandair lenda og taka á loft á Reykjavíkurflugvelli.
Áfram má búast við öskufjúki á Suður- og Suðvesturlandi en það fer minnkandi í dag. Á sunnudag er útlit fyrir hægviðri á landinu og ætti þá að draga enn frekar úr fokinu.