Sterkar vísbendingar eru um, að vímuefnaneysla barna og unglinga sé að aukast, og er þá bæði um að ræða áfengi og ólögleg vímuefni. Þetta segir forstjóri Barnaverndarstofu sem telur fulla ástæðu til að vera á varðbergi.
Þróunin hér á landi hefur verið mjög jákvæð undanfarin ár hvað varðar vímuefnaneyslu barna og unglinga og hefur hún skroppið töluvert saman. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir margt spila þar inn í, t.d. forvarnarstarf, meðferðarstarf en ekki síst vakning í þjóðfélaginu. „Þess vegna hefur maður sérstakar áhyggjur af því, að þessi þróun sé að snúast við,“ segir Bragi sem vill þó ekki taka of sterkt til orða. „En engu að síður eru þarna vísbendingar og þær ber okkur að taka alvarlega strax.“
Þrátt fyrir að kannanir um líðan íslenskra barna og ungmenna bendi til þess að þeim líði alls ekki verr en fyrir efnahagshrunið er ekki öll sagan sögð. Margt bendir til þess að andstæður séu skarpari og þeir sem höfðu það verst áður hafa það ennþá verra í dag.
Annars staðar þar sem þjóðir hafa lent í krepputíð eru áhrifin ótvíræð, en komu fram yfir langan tíma.
„En þetta gerist, hægt og bítandi þó menn verði þess ekki varir fyrr en að mörgum árum liðnum,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Hann segir niðurstöður könnunar um líðan barna og ungmenna ánægjulegar en „við vitum að það er lítill hópur eða minnihluti barna og ungmenna sem býr við mjög óhagfelldar uppeldisaðstæður. Þeirra ástand er jafnvel að versna og þó svo það mælist ekki í spurningalistakönnun sem lögð er fyrir heilu árgangana.“
Bragi segir, að þó svo það komi ekki fram í meðaltalstölum séu vísbendingar um að sá hópur sem hafi það hvað verst fari stækkandi, þó svo ekki sé um kollsteypur að ræða. Það sem er hvað verst eru sterkar vísbendingar um aukna neyslu áfengis og ólöglegra vímuefna hjá börnum og unglingum. „Þetta er þróun sem sést meðal annars á því að eftirspurn eftir vímuefnameðferð hjá okkur hefur aukist á síðustu misserum. Og það er fyrst og fremst eftirspurn eftir meðferð við ólöglegum vímuefnum sem hefur farið vaxandi. Það er því ástæða til að vera á varðbergi enda virðist sem þróunin sé í ógæfuátt.“