Gagnrýndi stjórnvöld harðlega

Ágúst Einarsson flutti sína síðustu ræðu í dag sem rektor …
Ágúst Einarsson flutti sína síðustu ræðu í dag sem rektor Háskólans á Bifröst. mbl.is

Ágúst Einarsson gagnrýndi stjórnvöld harðlega við útskrift á Bifröst í dag og vill nýtt lýðveldi og beina kosningu framkvæmdavaldsins. Ágúst lætur nú af störfum sem rektor Háskólans á Bifröst en við starfi hans tekur Magnús Árni Magnússon.

Samkvæmt tilkynningu frá skólanum sagði Ágúst m.a. í ræðu sinni að besta leiðin fyrir Íslendinga út úr kreppunni væri að efla háskóla og gagnrýndi hann stjórnvöld fyrir að rífa niður háskólakerfið. Hann sagði helsta vanda Íslendinga vera fámennið og „þegar bættust við siðleysi, græðgi og glæpamennska nokkurra tuga manna í lykilstöðum í fjármálageiranum þá hrundi hið fámenna samfélag okkar eins og spilaborg".

Ágúst taldi ekki víst að hægt væri að halda þjóðinni saman eftir þetta og hann tók undir hugmynd Njarðar P. Njarðvík um að stofna ætti nýtt lýðveldi enda væri flokkakerfi 20. aldarinnar gjaldþrota. Ágúst kvaðst vilja að framkvæmdavaldið væri kosið beint eins og gert er í Bandaríkjunum og í Frakklandi að hluta og rifjaði upp hugmyndir Bandalags jafnaðarmanna og Vilmundar Gylfasonar.

Ágúst sagði að skólastarfið hefði gengið vel á Bifröst og gæði námsins aukist eins og komið hefði fram í erlendri úttekt á þessu ári. Skólinn var rekinn með hagnaði á síðasta ári og það sem af er þessu ári. Umsóknir hafa aldrei verið fleiri en í fyrra og nemendur aldrei fleiri, segir í tilkynningu frá Bifröst.

Ágústi þakkað og Magnús boðinn velkominn

Ágústi voru færðar margvíslegar þakkir fyrir starf sitt fyrir Bifröst og mun skólinn m.a. halda sérstaka alþjóðlega ráðstefnu um menningu og viðskipti honum til heiðurs í haust. Magnús Árni Magnússon tók við rektorsstarfinu við þessa útskrift og var hann boðinn velkominn af þeim 400 gestum sem sóttu háskólahátíðina á Bifröst í dag.

Magnús Árni Magnússon tekur við sem rektor á Bifröst.
Magnús Árni Magnússon tekur við sem rektor á Bifröst.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka