Forgangur 260 milljarða króna skuldabréfs skilanefndar Landsbankans á nýja Landsbankann (NBI), ef til greiðslufalls hans kemur, var forsenda samkomulagsins sem íslensk stjórnvöld gerðu við skilanefndina 16. desember í fyrra.
Þess vegna er Alþingi að veita fjármálafyrirtækjum heimildir til að treysta stöðu skuldabréfaeigenda á kostnað innstæðueigenda, með frumvarpi þess efnis.
Ekki var greint frá þessum hluta samkomulagsins við skilanefndina, þegar það var kynnt á sínum tíma. Hins vegar var þá haft eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu að samkomulagið tryggði „sanngjarnt uppgjör við kröfuhafa.“
Að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nefndinni, eru stjórnvöld að uppfylla „leynisamning“ sem gerður var við kröfuhafa og á sama tíma að veita íslenskum innstæðueigendum falskt öryggi með nýju lögunum um innstæðutryggingar.