Íhugar framboð til varaformanns

Hanna Birna Kristjánsdóttir á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins. hag / Haraldur Guðjónsson

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segist óska nýjum meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar í borgarstjórn velfarnaðar í störfum.
Ljóst sé að hún og hennar flokkur hefðu viljað sjá hlutina gerast öðruvísi. Hún segir það hafa komið sér á óvart hve fljótt meirihlutaviðræður hófust en vill ekkert fullyrða um hvort þessir flokkar hafi verið búnir að ræða saman fyrir kjördag. Besti flokkurinn hafi t.d lagt mikla áherslu í sinni kosningabaráttu á að koma á nýjum vinnubrögðum í borgarstjórn.

„Við töluðum fyrir samstarfi allra flokka og höfðum mikla trú á því að það myndi vera heillavænlegast fyrir borgarbúa og í samræmi við niðurstöðu kosninga. Þau kjósa að fara aðra leið, leið sem menn hafa farið oft áður við hefðbundna meirihlutamyndun. Ég tek þeirri niðurstöðu,“ segir Hanna Birna í samtali við mbl.is.

Spurð hvernig hún muni nú starfa í minnihluta segist hún og hennar fólk leggja sig fram um að vinna vel og ærlega í öllum málum sem tengjast Reykjavíkurborg. „Með þessari ákvörðun að búa til hefðbundinn meirihluta þá erum við komin í minnihluta, sem takmarkar okkar aðgengi. Hugmyndir mínar gengu út á samstjórn allra flokka. Við munum sem stærsti flokkurinn í minnihluta að sjálfsögðu axla þá ábyrgð og gera það vel,“ segir Hanna Birna ennfremur.

Margir nefnt við hana framboð til varaformanns

Hanna Birna segist ætla að taka áfram að sér það verkefni að vera oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hugurinn stefni ekki annað. Hún er hins vegar enn að íhuga framboð til varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en landsfundur flokksins fer fram síðar í þessum mánuði.

„Ég sagði það fyrir viku síðan, og stend við það, að ég er með það til skoðunar hvort ég býð mig fram eða ekki. Margir hafa nefnt þetta við mig og mér finnst ég bera skylda til að skoða það vel. Ég mun fljótlega gera upp hug minn en verkefnin til þessa hafa verið næg,“ segir Hanna Birna.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í lok mánaðarins. Sem kunnugt er sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir af sér sem varaformaður flokksins og í það embætti er komið eitt framboð; frá Ólöfu Nordal þingmanni. Bjarni Benediktsson gefur áfram kost á sér í embætti formanns og enn sem komið er hefur enginn ákveðið að fara gegn honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert