Flugdagurinn var haldinn hátíðlegur á Reykjavíkurflugvelli í dag, með tilheyrandi flug- og flugvélasýningum. Ekki varð röskun á deginum vegna öskumistursins í borginni, en askan hefur verið mun minni í dag en hún var í gær.
Flugdagurinn er haldin af Flugmálafélagi Íslands í samvinnu við Icelandair og Isavia. Flugvélar af öllum stærðum og gerðum voru til sýnis og var flugsýning haldin eftir hádegið.. Sýnt var svifflug, flugmódelflug, listflug, hópflug og lágflug. Landhelgisgæslan var með sýningaratriði og sett var á keppni á milli bíls og flugvélar. Þá lenti farþegaþota frá Icelandair og tók á loft á Reykjavíkurflugvelli.
Áfram má búast við öskufjúki á Suður- og Suðvesturlandi. Á morgun er útlit fyrir hægviðri á landinu og ætti þá að draga enn frekar úr fokinu.