Fjölmenni var á reiðhjólauppboði lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu sem hófst klukkan 11 í dag. Um 80 reiðhjól voru boðin upp en allt eru það hjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hirt um að sækja.
Á síðasta ári voru tilkynningar um stolin reiðhjól liðlega 700 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ljóst hvað verður um meirihluta þeirra en 180 reiðhjól bárust til óskilamunadeildar. Algengt er hjól berist þangað nokkrum mánuðum eftir að þeim var stolið. Eigendunum nægir því sjaldnast að koma bara til lögreglu strax eftir þjófnaðinn, þeir verða líka að koma aftur nokkrum vikum seinna til að fullreyna hvort hjólin séu í vörslu lögreglu eða ekki.
Ætla má að fjölmargir hafi gert góð kaup á uppboðinu í morgun. Reiðhjólauppboð af þessu tagi eru orðinn fastur liður á vorin og margir sem bíða þeirra í von um að kaupa notuð hjól á hagstæðu verði. Í ár voru þó töluvert færri reiðhjól boðin upp en í fyrra, þegar 150 reiðhjól voru í óskilum.