Fjárfestingarnefnd Rio Tinto, móðurfélags álvers ISAL í Straumsvík, hefur samþykkt að ráðast í seinni hluta straumhækkunar, með tveimur skilyrðum. Þau lúta annars vegar að byggingu Búðarhálsvirkjunar og hins vegar að fyrirætlunum stjórnvalda með orkuskattinn, sem lagður var á í fyrsta skipti á þessu ári.
Að sögn Rannveigar Rist, forstjóra ISAL, er þetta mikilvægur áfangi í verkefninu og ánægjulegar fréttir. Með straumhækkuninni fer framleiðslugeta álversins upp í 225 þúsund tonn. Fjárfestingin í verkefninu mun nema 250 milljónum dollara, ef af verður.
Í ávarpi sem Rannveig hefur skrifað inn á innri vef fyrirtækisins segir að skilyrði fjárfestingarnefndarinnar sé annars vegar að það verði að liggja fyrir að Búðarhálsvirkjun verði byggð.
Staða virkjunarinnar er þannig í dag að öll skipulagsmál hafa verið kláruð, auk umhverfismats, og öll leyfi fengist. Undirbúningsframkvæmdir eru meira að segja hafnar. Það eina sem stendur út af borðinu er fjármögnunarhliðin hjá Landsvirkjun. Virkjunin þykir ekki mjög umdeild, enda staðsett á mikið röskuðu svæði og virkjanir bæði ofan og neðan hennar á vatnasviði Þjórsár.
Hærri skattur gæti hindrað fjárfestingu
„Í öðru lagi þarf að afla nánari upplýsinga um fyrirætlanir stjórnvalda varðandi skattamál, en um þær ríkir talsverð óvissa eftir að óljósar upplýsingar komu fram í fjölmiðlum nýverið um að uppi væru hugmyndir um að hækka orkuskattinn, sem lagður var á í fyrsta sinn á þessu ári. Þess má geta að skatturinn kostar ISAL núna um það bil eina milljón króna á dag,“ skrifar Rannveig í ávarpi sínu til starfsmanna.
Í fyrra komu upphaflega upp hugmyndir um að orkuskatturinn gæti verið hátt í krónu á kílóvattsstund, en endanleg útfærsla varð sú að skatturinn nemur 12 aurum á hverja kílóvattsstund.
Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, segir að fyrirtækið þurfi að fá nánari upplýsingar, um hvort rétt sé að hækka eigi orkuskattinn. „Til þess að það sé hægt að taka ákvarðanir um stórar fjárfestingar. Það er ekki gott að gera það í óvissu.“
Hann segir á síðasta ári hafi farið fram viðræður milli fyrirtækisins og stjórnvalda, vegna orkuskattsins. Hluti af því samkomulagi hafi verið að álverið fyrirframgreiddi skatta í þrjú ár, en þeir nema hundruðum milljóna króna á ári hverju.
Ólafur Teitur segir jafnframt að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi litið svo á að samkomulag væri í gildi um það hvernig skattamálum yrði háttað á næstu árum, í rekstrarumhverfi álversins.
Rannveig Rist segist í ávarpi sínu vonast til þess að báðum þessum skilyrðum Rio Tinto verði fullnægt fyrir næsta haust, svo framkvæmdin geti farið af stað.