Sól og blíða á Hátíð hafsins

Ýmislegt forvitnilegt ber fyrir augu á Hátíð hafsins á Granda …
Ýmislegt forvitnilegt ber fyrir augu á Hátíð hafsins á Granda í Reykjavík. Morgunblaðið/Ernir

Blíðskaparveður leikur við gesti Hátíðar hafsins sem haldin er á Granda og við Ægisgarð í dag. Hátíðinni er ætlað að hylla hafið sem hefur verið grundvöllur einnar mikilvægustu atvinnugreinar Íslendinga í mörg hundruð ár.

Fjölbreytt dagskrá hófst í morgun en hátíðinni lýkur seinnipart sunnudags. Fjölbreyttar smiðjur er að finna á höfninni, svo sem módelsmiðjan Undirheimar hafsins, flöskuskeytasmiðja, hnúasmiðja, leiktæki fyrir börnin og siglingar um sundin. Þá opnar nýr og ferskur fiskmarkaður á hátíðinni og margt fleira.

Í gömlu verbúðunum á Granda og við Geirsgötu er nú fjölbreytt starfsemi til sýnis fyrir gesti og gangandi. Þar er að finna gallerí og vinnustofur listamanna, verslanir og veitingastafi. Ný veitingastofa sem kallast Bryggjan opnar formlega í tilefni Hátíðar hafsins í húsakynnum Sjóminjasafnsins og útiveitingapallur verður vígður.

Færeyingar eru sérstakir gestir hátíðarinnar í ár og koma þeir siglandi á skútunni Westaward Ho í dag klukkan 14. Þá mun björgunarskipið LÍV sýna hæfni sína, stiginn verður færeyskir dans og Jógvan stígur á svið ásamt vini sínum Friðriki Ómari Borgarstjóri Þórshafnar í Færeyjum, Heðin Mortensen, flytur ávarp á hátíðardagskrá Sjómannadagsráðs og myndlistarmaðurinn Finleif Morensen opnar sýningu á verkum sínum í Sjóminjasafninu.

Að minnsta kosti einn hátíðargestur huldi vit sín með buffi, …
Að minnsta kosti einn hátíðargestur huldi vit sín með buffi, en ósagt skal látið hvort það var vegna öskufoksins. Morgunblaðið/Ernir
Gúmbjörgunarbátur á ferð við Granda í dag.
Gúmbjörgunarbátur á ferð við Granda í dag. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert