Sjómannadagshátíðin Sjóarin síkáti í Grindavík laðaði til sín þúsundir gesta í dag í blíðskaparveðri. Fjölbreytt dagskrá var í gangi allan daginn og nóg við að vera fyrir unga sem aldna; leiktæki, leiksýningar, söngatriði, dans, handverksmarkaður og keppni um Sterkasta mann Íslands, svo fátt eitt sé nefnt.
Mikil áhersla hefur jafnan verið lögð á að Sjóarinn síkáti sé hátíð allrar fjölskyldunnar. Til viðbótar þeim atriðum sem fyrr eru nefnd má einnig nefna sýningu brúðubílsins, fótboltamót, golfmót, sundmót, gönguferðir, kappróður, hópferð bifhjóla um bæinn, dorgveiðikeppni og dansleiki.
Sjá má fleiri myndir á vef Víkurfrétta og dagskrá hátíðarinnar er á vef Grindavíkurkaupstaðar, en dagskránni lýkur á morgun á sjálfum sjómannadeginum.