Laxveiðin virðist fara betur af stað í Blöndu en í Norðurá. Um hálfellefuleytið voru komnir 12 laxar á land. Strax upp úr klukkan sjö í morgun kom fyrsti laxinn, hjá Agli Guðjohnsen tannlækni. Hefur Blanda sjaldan byrjað betur, en veður telst ákjósanlegt til veiða; þoka og frekar kalt.
„Þetta eru allt flottir tveggja ára laxar, á bilinu 10 til 15 pund," sagði Ingi Freyr Ágústsson, fv. veiðivörður í Blöndu, við mbl.is en hann hefur fylgst með veiðimönnum í Blöndu í morgun. Munaði litlu að einn 20 punda lax næðist en hann hann sleit línuna.
Átta laxveiðimenn hófu daginn í Blöndu og horfa þeir bjartsýnir til veiðinnar í dag. Af þessum 12 löxum sem hafa veiðst hafa tveir náðst neðan Breiðunnar í flúðunum, en aðrir á þekktari veiðistöðum.