Konráð Lúðvíksson, fæðingarlæknir í Keflavík, hefur hafið störf við Sjúkrahús Akraness. Konráð, sem starfað hefur í 27 ár við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, segir að sér þyki vænt um stofnunina en úr því sem komið sé geti hann ekki uppfyllt sínar faglegu þarfir þar eftir að skurðstofu HSS var lokað 1. maí.
„Ég geri ráð fyrir því að vera á Akranesi eina viku í mánuði til að sinna skjólstæðingum mínum sem fylgja mér og vilja að ég sinni þeim,“ segir Konráð.
Með lokun skurðstofunnar geta fæðingar með inngripi og keisaraskurðir ekki farið fram á HSS en verðandi mæðrum er frjálst að sækja þjónustu þangað sem þær vilja. „Ég hef alltaf haft sterkar taugar til Akraness og er landsbyggðarþenkjandi maður svo að þegar mér bauðst að starfa þar sá ég að það myndi henta mér vel.“