„Svarið við fyrirspurn þingmannsins er nei. Ég hafði enga milligöngu um það að þessi tillaga var lögð fram í bankaráðinu. Vissi ekki um hana og hafði ekkert með hana að gera,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar um ráðningu seðlabankastjóra.
Sigurður Kári segir að þeir tölvupóstar sem hafi verið lagðir fram varðandi ráðningu seðlabankastjóra sanni að forsætisráðherra hafi sagt ósatt.
„Ég hef fyrir því traustar heimildir að fullltrúar stjórnarflokkanna í bankaráði seðlabankans hafi ákveðið að hafa ákvörðun kjararáðs að engu. Og að seðlabankastjóra sé greidd launahækkunin upp á 400 þúsund krónur á mánuði þrátt fyrir úrskurð kjararáðs, og láti eins og tillaga formanns bankaráðsins, Láru V. Júlíusdóttur, að höfðu samráði við forsætisráðuneytið, hafi verið samþykkt í bankaráði. Það er auðvitað augljóst að með þessari ákvörðun eru fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráðinu að brjóta gegn úrskurði kjararáðs,“sagði hann á þingi.
„Mér kemur það sannarlega spánskt fyrir sjónir ef að þetta eru réttar upplýsingar sem háttvirtur er með, að bankaráð ætli að hunsa tillögu kjararáðs og greiða bankastjóranum launahækkun. Það er alveg þvert gegn lögum. Það er brot á lögum ef að það er gert,“ sagði Jóhanna í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
„Það er skrítið þegar verið er að nefna þessar 400 þúsund sem hafa verið í umræðunni. Þetta er svona nákvæmlega um það bil það sama hækkun og fyrrverandi seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, skammtaði sjálfum sér til hækkunar þegar hann var seðlabankastjóri.“
Þá spurði Jóhanna Sigurð Kára hver hafi, í ljósi umræðu um gegnsæi, styrkt þingmanninn um 4,6 milljónir króna í prófkjörsbaráttu. „Væri nú ekki rétt að minnast á það hver styrkti háttvirtan þingmann. Af því hann er nú talsmaður gengsæis og opinnar stjórnsýslu, og það er ítrekað verið að kalla á þetta,“ sagði ráðherra.
„Það er allt hreint og klárt í þessu máli, að því er varðar mína aðkomu sem engin er.“