Hreyfingin kallar eftir siðferðislegri forystu á Alþingi

Þingmenn Hreyfingarinnar.
Þingmenn Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn Hreyfingarinnar kalla eftir siðferðislegri forystu meirihluta Alþingis er kemur að afgreiðslu frumvarps um heimild iðnaðarráðherra til samninga við Novator um ívilnanir til handa Verne Holdings. 

Segir í fréttatilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar að Novator sé í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

„Björgólfur Thor Björgólfsson var einn eiganda Landsbankans. Að því er fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis bera stærstu eigendur bankanna umtalsverða ábyrgð á hruninu, þar með talið Björgólfur Thor.

Hann hefur þó ekki hlotið dóm og hefur ekki réttarstöðu grunaðs svo vitað sé og samkvæmt þeim leikreglum sem réttarríkið setur okkur er hver maður saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Hann á þó ekki sjálfkrafa rétt á fjárfestingarsamningi við íslenska ríkið sem felur í sér skattaívilnanir enda teljast slíkar ívilnanir ekki til sjálfsagðra mannréttinda.

Það er eðlilegt krafa í viðskiptum að gera ekki samninga við aðila sem ekki hafa reynst vel í fyrri viðskiptum. Ein meginástæðan sem gefin er til réttlætingar á þessum umrædda fjárfestingarsamningi er að samningurinn skili erlendri fjárfestingu inn í landið. Sú ástæða var einnig gefin þegar Samson ehf., félag í eigu Björgólfs Thors og fleiri, keypti stóran hlut í Landsbankanum. Síðar kom í ljós að hluti kaupverðsins var tekinn að láni í Búnaðarbankanum," segir í fréttatilkynningu sem þingmennirnir þrír hafa sent frá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert