Sigurður Kári Kristjánsson sagði í ræðu sinni á Alþingi í morgun að hann hefði fyrir því „traustar heimildir að fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráði Seðlabankans hafi ákveðið að hafa ákvörðun kjararáðs að engu.“ Samkvæmt þessum heimildum segir hann að Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, verði greidd 400.000 króna launahækkun þrátt fyrir úrskurð kjararáðs.
„Það er auðvitað ljóst að með þessari ákvörðun eru fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráðinu að brjóta gegn úrskurði kjararáðs og það er jafnljóst að með því eru embættismenn sem forsætisráðherra ber pólitíska ábyrgð á að brjóta gegn hennar eigin launastefnu,“ sagði Sigurður Kári og kvað forsætisráðherra þurfa að upplýsa hvort þessi „makalausa ákvörðun“ hafi verið tekin með hennar vitneskju og ráðuneytisins.
„Mér kemur það sannarlega spánskt fyrir sjónir ef þetta eru réttar upplýsingar sem háttvirtur þingmaður er með,“ sagði Jóhanna í svarræðu sinni. Sagði hún að það fæli í sér brot á lögum og hafnaði því að hún hefði haft vitneskju eða aðkomu að málinu að þessu leyti.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hafi ekki rætt laun sín beint við Jóhönnu. Hann hafi sent henni tölvubréf um málið en ekki fengið svar. Jóhanna hefur staðfest þetta og kveðst ekki hafa séð ástæðu til að svara þar sem launamál hans standi utan verkahrings hennar.