Sigurður Kári vænir Jóhönnu um spillingu og lygar

Sigurður Kári
Sigurður Kári Valdís Þórðardóttir

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í ræðustól Alþingis að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, væri í „standandi vandræðum“ vegna launamála seðlabankastjóra sem hafa verið til umfjöllunar á þingi og í efnahags- og skattanefnd að undanförnu. Vændi hann forsætisráðherra um lygar og spillingu.

„Þetta mál lyktar af pólitískri spillingu sem hæstvirtur forsætisráðherra ber ábyrgð á. [...] Hæstvirtur forsætisráðherra hefur gefið þinginu útskýringar sem hvorki standast né eru sannleikanum samkvæmar,“ sagði Sigurður Kári. Hann sagði tölvubréf sem komið hefðu fram sýndu að forsætisráðuneytið hefði haft aðkomu að málinu og sönnuðu að yfirlýsingar forsætisráðherra á þingi hafi ekki verið „sannleikanum samkvæmar.“

Þá benti hann að Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, hafi staðfest að forsætisráðuneytið hafi komið að málum með ósk um að bankaráð kæmi að ákvörðun launa seðlabankastjóra. Með því væri gengið gegn úrskurði kjararáðs um efnið. Um þetta er fjallað á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Jóhanna hafnaði persónulegri aðkomu að málinu og vitneskju um aðkomu ráðuneytis hennar. Vísaði hún ásökunum Sigurðar Kára á bug. Kvað hún hvorki forsætisráðherra né ráðuneytið hafa vald til að fara á svig við úrskurð kjararáðs lögum sem hafa að markmiði að opinberir starfsmenn hafi ekki hærri laun en forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert