Félagið Rauðsól ehf, nú 365 miðlar ehf í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúi Íslenskrar afþreyingar 160 milljónir króna með dráttarvöxtum vegna kaupa fyrirtækisins á fjölmiðlahluta 365 ehf í nóvember 2008.
Þá var samið um að Rauðsól myndi greiða 1,5 milljarða króna fyrir fjölmiðlahluta 365 sem var í eigu Íslenskrar afþreyingar, auk yfirtöku á 4,4 milljarða rekstrarskuld. Íslensk afþreying og Rauðsól gerðu hinsvegar með sér samning um að síðarnefnda félagið fengi 160 milljón króna afslátt af kaupverðinu og greiddi þar með aðeins 1.340 milljónir krón fyrir fjölmiðlahluta 365. Skiptastjóri þrotabús Íslenskrar afþreyingar krafðist þess hinsvegar fyrir dómi að þeim samningi yrði rift og Rauðsól greiði milljónirnar 160 inn í þrotabúið.
Fram kemur í dómnum að talsmenn Rauðsólar, nú 365, hafi haldið því fram að endurgjald hafi komið í stað afsláttar og að forsendur hafi brostið fyrir umsömdu kaupverði. Dómurinn felst ekki á þetta og bentir á að sýnt sé að sami einstaklingur var aðaleigandi að móðurfélagi Rauðsólar og seldi hlutabréfin til einkhlutafélags í eigu sjálfs síns. Sömu lykilstjórnendur voru í báðum félögum og sátu þeir stjórnarfundi og undirrituðu samningana umdeildu. Héraðsdómur kemst því að þeirri niðurstöðu að um gjafagjörning hafi verið að ræða.
Rauðsól ehf, nú 365 miðlar, er dæmt til að greiða þrotabúinu aftur afsláttinn sem nemur 160 milljónum króna með dráttarvöxtum auk 759.000 króna í málskostnað.