Framkvæmdir hófust í dag við lagfæringar á varnargörðum fyrir ofan Svaðbælisá undir Eyjafjallajökli. Í jökulflóðinu sem kom í Svaðbælisá í upphafi eldgossins urðu miklar skemmdir á varnargörðum, túnum og öðru gróðurlendi.
Farvegur árinnar
fylltist af leðju og framburði í hlaupinu og síðan hafa komið eðjuflóð
í ánna. Af þessum sökum hafa varnargarðarnir verið óvirkir, að sögn
Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra.
Ríkisstjórnin samþykkti að fara í
þessar neyðaraðgerðir og var tekið tilboði frá Suðurverki í
framkvæmdirnar ofan og austan við Þorvaldseyri að upphæð um 20
milljónir króna. Kostnaðaráætlun var upp á 47 milljónir króna. Verkefni
er unnið í samstarfi Landgræðslunnar og Vegagerðarinnar.