SFR: Ætlar Árni Páll í stríð?

Fleiri þúsund ríkisstarfsmenn starfa á Landspítalanum
Fleiri þúsund ríkisstarfsmenn starfa á Landspítalanum mbl.is/ÞÖK

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR segir að frysting launa opinberra starfsmanna gangi einfaldlega ekki upp sem sparnaðarleið. Spyr hann hvort félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, ætli í stríð við opinbera starfsmenn.

í grein sem birtist í Fréttablaðinu  í morgun lýsir Árni Páll því yfir að ein aðferðin til sparnaðar fyrir ríkið sé að frysta laun opinberra starfsmanna í þrjú ár. „Hann gengur svo langt að segja að slík aðferð sé jafnvel nauðsynleg til að verja velferðarkerfið; þjónustuna við aldraða, fatlaða o.s.frv.  Gerir félagsmálaráðherra sér grein fyrir því hverjir það eru sem starfa við það dagsdaglega að verja velferðarkerfið? Það eru einmitt opinberir starfsmenn sem þiggja fyrir það laun á bilinu 190-250 þúsund," segir í tilkynningu frá SFR. 

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR segir að frysting launa opinberra starfsmanna gangi einfaldlega ekki upp sem sparnaðarleið, það viti hver maður að nú sé markmiðið að efla efnahagskerfið en hugmyndir félagsmálaráðherra ganga þvert á það, segir Árni Stefán.

Frysting launa muni kalla á samdrátt í hagkerfinu og það sé algjörlega út í hött að ræða launamál á þessum nótum, án allrar tengingar við aðra þróun í samfélaginu.

Árni Stefán segir það reyndar vekja furðu að þessi orð séu látin falla núna mitt í umræðum milli aðila um fjárlög næsta árs. Stéttarfélög opinberra starfsmanna og ríki séu nú að undirbúa umræðu um fjárlagagerð og svona hótanir séu alveg úr takti við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er á mörkunum að það sé hægt að taka mark á svona gaspri, segir Árni Stefán. Það sé með öllu forkastanlegt að nota orð eins og þjóðarsátt um frystingu launa opinberra starfsmanna, segir í tilkynningu frá SFR.

„Rétt er að benda á að samkvæmt nýlegri frétt frá Hagstofu Íslands hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 1,3% að meðaltali á fyrsta ársfjórðungi 2010 en laun opinberra starfsmanna hækkuðu einungis um 0,3% á sama tíma.

Ef teknar eru tölur frá fyrra ári má sjá að laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 4,4% en laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 1,4% á sama tíma," segir í tilkynningu.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert