Skoðanakannanir sem gerðar voru fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík endurspegluðu kosningaúrslitin nær fullkomlega. Þetta segir í tilkynningu frá MMR, Markaðs- og miðlarannsóknum, sem gert hefur upp niðurstöður könnunar í samanburði við niðurstöður kosninganna.
Könnunin var unnin af MMR fyrir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins og vöktu niðurstöður hennar mikla athygli, enda bentu þær til þess að Besti flokkurinn hefði tæplega 36% fylgi og væri stærsti flokkurinn í Reykjavík. Að sögn MMR reyndist skipting borgarfulltrúa milli framboðanna að afloknum kosningum vera nákvæmlega hin sama og spáð hafði verið samkvæmt könnun fyrirtækisins.
Helstu frávik í samanburði könnunarinnar og raunverulegra úrslita voru þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 2,8% meira fylgi en spáð var og Vinstri græn fengu 3,1% minna fylgi en spáð var.