Stjórnalagaþing rætt í „óðagoti og taugaveiklun"

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnlagaþing er ófullburða að mati þingmanna Sjálfstæðisflokks í allsherjarnefnd. Sjálfstæðismenn telja að sú leið sem farin er í frumvarpinu, að leggja til að kjörnir verði 25-31 fulltrúi til þess að sitja á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskránna sé ekki til þess fallin að auka traust þjóðarinnar gagnvart Alþingi.

„Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins kjósa Íslendingar 63 þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi til að setja landinu lög. Stjórnarskráin heimilar ekki að öðrum þjóðkjörnum fulltrúum sé falið það hlutverk. Þá er það með sama hætti grundvallarhlutverk Alþingis að fjalla um stjórnarskrá og því mikilvæga verkefni getur þingið ekki vísað frá sér," segir í nefndaráliti sem þau Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal lögðu fram í allsherjarnefnd.  Frumvarp um stjórnlagaþing er til umræðu á Alþingi í dag.

Sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd telja að Alþingi eigi að setja stjórnarskrána á dagskrá með skýrum hætti og í þeirri vinnu komi fram afstaða alþingismanna til þeirra breytinga sem gera þurfi á stjórnarskrá.  Fjöldamörgum spurningum sé ósvarað í því frumvarpi sem ríkisstjórnin hafi lagt fram og „óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að málið sé sett fram í miklu óðagoti og taugaveiklun."

„Engin ástæða er til að fjalla um mál af þessum toga á síðustu dögum þingsins þegar fyrir liggur að meginverkefni Alþingis þessa dagana er að koma heimilum og fyrirtækjum til bjargar. Það er skoðun 1. minni hluta að ýta eigi öllum öðrum málum til hliðar og einhenda sér í það að koma með lausnir fyrir heimilin og fyrirtækin í þessu landi."

Minni hluti Sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd leggur til að kosin verði 9 manna nefnd fyrir lok yfirstandandi löggjafaþings og litað verði eftir ráðgjöf frá mönnum utan þings, án þess að Alþingi afsali sér valdi til að breyta stjórnarskránni.

Þegar nefndin hafi skilað tillögum sínum til Alþingi verði þær teknar til meðferðar á afmörkuðu tímabili þannig að ekkert annað mál verði á meðan tekið til umræðu en breytingar á stjórnarskrá. Með því þurfi þingið sjálft og allir þingmenn að móta sér skoðun á tillögum nefndarinnar.

Ólöf Nordal.
Ólöf Nordal.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert