Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti Íslensku menntaverðlaunin í kvöld. Verðlaunin eru miðuð að íslensku grunnskólastarfi og þeim ætlað að hvetja og verðlauna þá sem stuðlað hafa að grósku í því starfi. Verðlaunaafhendingin fór fram í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi en verðlaunin voru veitt í fjórum flokkum.
Lækjarskóli hlaut verðlaun í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi. Haraldur Haraldsson, skólastjóri Lækjarskóla, tók við verðlaununum fyrir hönd skólans.
Ragnheiður Hermannsdóttir hlaut verðlaun í flokki kennara sem skilað hafa merku ævistarfi eða á annan hátt skarað fram úr. Ragnheiður er kennari við Háteigsskóla en hefur einnig sinnt kennslustörfum í kennslufræði við Kennaraháskólann ásamt því að hafa starfað ötullega að námsefnisgerð.
Lindu Heiðarsdóttur voru veitt verðlaunin í flokki ungs fólks sem í upphafi kennsluferils síns hefur sýnt hæfileika og lagt alúð við störf sín. Þá voru Iðunni Steinsdóttur veitt verðlaunin sem höfundi námsefnis sem stuðlað hefur að nýjungum í skólastarfi.
Guðbrandur Stígur Ágústsson, verkefnastjóri Íslensku menntaverðlaunanna hjá embætti forseta Íslands, segir þau veitt til að vekja athygli á því góða starfi sem fram fer í grunnskólum. „Við dveljum þar öll í tíu ár hið minnsta og búum okkur undir lífið. Þarna er grunnurinn lagður að velferð hvers og eins í framtíðinni. Grunnskólinn er þannig ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Verðlaunin eru miðuð að því að draga þetta fram í dagsljósið. Við gleymum því oft, að mínu mati, hversu mikilvægur grunnskólinn er," segir Guðbrandur Stígur en telur mikilvægt að þjóðin átti sig á þessu.
Tilnefningar til menntaverðlaunanna berast árlega frá allri þjóðinni að sögn Guðbrands, því hver og einn getur tilnefnt sinn uppáhalds kennara, gamla eða nýja og tilnefningar berist víða að.
Nánar í Morgunblaðinu. Smelltu hér til að gerast áskrifandi.