Við það að missa af brúðkaupinu

Bandarískt par sem bíður eftir að flugvél Iceland Express fari frá Newark flugvelli við New York er við það að missa af eigin brúðkaupi en þau eiga að vera komin til Frakklands þar sem öll fjölskyldan bíður. Flugvélin átti að lenda á Íslandi klukkan 5:50 í morgun en er ekki enn lögð af stað frá New York.

Verið er að kalla farþega út í flugvél eftir að hafa beðið í tólf tíma á flugvellinum. Eru margir afar ósáttir við framkomu flugfélagsins þar sem sex tímar liðu frá því vélinni var snúið við aftur til Newark vegna bilunar þar til farþegarnir fengu eitthvað að borða og drekka. Eins var engar upplýsingar að fá frá Iceland Express, að sögn farþega sem hafði samband við mbl.is er hann beið eftir fluginu.

Líkt og fram kom á mbl.is í morgun þurfti að snúa vélinni við vegna smávægilegrar bilunar en vegna alþjóðlegra reglna um hvíldartíma áhafnarinnar þá þurfti að fresta brottför til klukkan 13 í dag. Hún er hins vegar ekki enn farin af stað en byrjað var að kalla farþega um borð klukkan 13:30 að íslenskum tíma. 

Að sögn farþegans var það ekki fyrr en eftir ellefu eða tólf tíma sem farþegarnir fengu samlokur en nokkru áður hafði tekist að fá leyfi til þess að taka teppi úr flugvélinni þar sem fólki var orðið kalt í flugstöðinni. Var það um miðja nótt að staðartíma. (Klukkan í New York er fjórum tímum á eftir íslensku klukkunni á sumrin).

Brúðhjónin voru orðin ansi langþreytt á biðinni og alveg ósofin enda mikið í húfi. Beið brúðurin með brúðarkjólinn í flugstöðinni og vonandi tekst að koma þeim á áfangastað áður en athöfnin á að hefjast í Frakklandi á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert