Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), er að rannsaka viðskipti Kaupþings með skuldatryggingar á skuldabréf bankans á árinu 2008. Þýski bankinn Deutsche Bank er einnig til rannsóknar, en fullyrt er að hann hafi tekið þátt í markaðsmisnotkun sem miðaði að því lækka skuldatryggingarálag Kaupþings. Fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings segir að Deutsche Bank hafi átt frumkvæði að málinu, en því vísar bankinn algerlega á bug.
Þessi mál eru líka til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, sérstaklega lánveitingar vegna þessara viðskipta, en þær námu um 80 milljörðum króna. Þeir peningar komu allir úr Kaupþingi og voru notaðir til að hafa áhrif á hvernig markaðurinn erlendis og hér heima mat áhættu af viðskiptum við bankann.
Sigurður viðurkennir að hafa reynt að hafa áhrif á álagið
Áður en íslensku bankarnir féllu í október 2008 hækkaði skuldatryggingarálag bankans mikið. Þetta endurspeglaði vantrú markaðarins á íslensku bönkunum og þá áhættu sem talin var fylgja viðskiptum við þá. Stjórnendur bankanna og raunar einnig íslensk stjórnvöld töldu á þessum tíma að álagið væri alltof hátt og í engu samræmi við þá áhættu sem fylgdi viðskiptum við bankann.Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði í yfirheyrslu hjá rannsóknarnefnd Alþingis að hann hefði fengið ábendingar um að sáralítil viðskipti væru á bak við þessa hækkun og álagið hækkaði jafnvel þótt engin viðskipti ættu sér stað.
Sigurður sagði í bréfi sem hann sendi vinum og vandamönnum í upphafi árs 2009: „Að tillögu Deutsche Bank var ákveðið að láta reyna á hvað myndi gerast ef bankinn myndi sjálfur fara að kaupa þessar tryggingar. Það var hins vegar ekki einfalt mál, þar sem bankinn gat ekki gefið út tryggingar á sjálfan sig. Því var gripið til þess ráðs að fá viðskiptavini okkar sem við treystum vel og höfðum átt langvarandi samskipti við sem byggðust á trausti og hollustu til að eiga þessi viðskipti fyrir hönd bankans. Vitanlega hefðum við aldrei átt þessi viðskipti nema vegna þessara sérstöku aðstæðna. Viðskiptin voru gerð með hagsmuni bankans að leiðarljósi og í fullu samræmi við lög og reglur.“
Ekki virðist því vera ágreiningur um að Kaupþing reyndi að hafa áhrif á skuldatryggingarálagið. Ágreiningur er hins vegar um hvort þetta hafi verið löglegt athæfi. Úr því verður væntanlega skorið fyrir dómstólum, þ.e.a.s. ef gefin verður út ákæra í málinu.
80 milljarða viðskipti
Í frétt í breska blaðinu Guardian um helgina neitar talsmaður Deutsche Bank því að hafa átt frumkvæði í þessu máli. Hann segir að bankinn vinni í góðri samvinnu við stjórnvöld að því að upplýsa alla þætti málsins.Rannsókn SFO nær til viðskipta sem hljóða upp á a.m.k. 500 milljónir evra (um 80 milljarða króna). Í frétt blaðsins eru tveir þekktir kaupsýslumenn nefndir á nafn, Kevin Standford og Tony Yerolemou.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að í ársbyrjun 2008 hafi Deutsche Bank komið að málinu með ráðgjöf og vitnað er í bréf þar sem bankinn segir mikilvægt að tímasetja útgáfuna rétt til að fá „most „bang for the buck““.
Í upphafi var ætlunin að þrjú félög tækju þátt í þessu en þau voru í eigu sex einstaklinga sem voru í miklum viðskiptum við Kaupþing. Þessi þrjú félög áttu að kaupa lánshæfistengd skuldabréf að nafnvirði 125 milljónir evra hvert, með tryggingu upp á 250 milljónir hvert. Svo virðist þó sem viðskiptin hafi ekki átt sér stað við eitt félagið þegar á hólminn var komið. „Eigendur tveggja félaga fengu 130 milljónir evra að láni frá Kaupþingi í Lúxemborg. 125 milljónir evra voru eiginfjárframlag til félaganna en 5 milljónir evra gengu til greiðslu þóknunar til Deutsche Bank. Þar sem samningurinn var 250 milljóna evra virði þá fengu félögin 125 milljónir evra að láni frá Deutsche Bank og var lánið með ákvæði um gjaldfellingu ef skuldatryggingarálag færi upp fyrir ákveðin mörk,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar.
Í skýrslunni segir að félögin hafi verið Chesterfield United Inc. sem var í eigu Kevin Stanford, Karen Millen, Tony Yerolemou og Skúla Þorvaldssonar og Partridge Management Group S.A. sem var í eigu Ólafs Ólafssonar.
Álagið hækkaði aftur í september
Þessar tilraunir til að hafa áhrif á skuldatryggingarálagið skiluðu árangri því að það lækkaði um 200-300 punkta. Allt fór hins vegar á annan endann þegar kom fram í september 2008.Í bréfi Sigurðar Einarssonar, sem áður er nefnt, segir hann að eftir að Lehman Brothers varð gjaldþrota í september 2008 og fréttir bárust af því að stórir bankar í Bretlandi væru í hættu hafi skuldatryggingarálagið hækkað. „Þar sem að skuldabréfin, sem við í Kaupþingi ásamt viðskiptafélögum okkur höfðum keypt, voru skuldsett og höfðu nú lækkað í verði var aðeins um tvennt að ræða. Að reiða fram meiri tryggingar eða að gefast upp, láta selja skuldabréfin og tapa hluta eða allri upphaflegri fjárfestingunni. Seinni kosturinn var einfaldlega fráleitur í mínum huga. Lausafjárstaða Kaupþings var góð og ekkert sem benti til annars en að bankinn mundi standa þessa ágjöf af sér, rétt eins og bankinn hafði gert árið 2006 og á vordögum 2008.“
Sigurður segir að þessi viðskipti séu skýringin á þeim fjármagnsflutningum sem fjölmiðlar hafi fjallað mikið um að hafi átt sér stað skömmu fyrir hrun bankans í byrjun október 2008. „Tilgangur þeirra var að viðhalda Kaupþingi sem „going concern“ og allt útlit var fyrir að það tækist í lok september.“