Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingsflokksformaður Sjálfstæðisflokks, vill koma á framfæri athugasemdum við frétt mbl.is um ætlað málþóf á Alþingi fyrir hádegi. Telur hún fjarstæðukennt að tala um málþóf í ræðu Birgis Ármannssonar, samflokksmanns hennar, en í henni talaði hann meðal annars um almennt eðli stjórnarskráa og stiklaði á atriðum úr stjórnskipunarsögu Suður Afríku og Þýskalands.
Telur Ragnheiður Elín það fullkomlega eðlilegt að dregin sé upp mynd af því sem viðgengst í öðrum ríkjum og farið sé í saumana á málum er varða stjórnarskrár. Frumvarp um stjórnlagaþing varði stjórnskipun landsins og þurfi að ígrunda vel. Þá geti að hennar mati ekki talist málþóf þegar mál hefur aðeins verið rætt í samanlagt tæpar níu klukkustundir á þingi.
Þá vildi Ragnheiður vegna fréttar um kvöldfundi á Alþingi að fram kæmi að umræðan um löng fundahöld hafi komið til vegna ólíkra viðhorfa stjórnar og stjórnarandstöðu til hvaða málum skuli skipað fremst í forgangsröðina. Það væri ekki svo að sjálfstæðismenn treystu sér ekki til að vinna langa vinnudaga heldur teldu þeir að ekki væri lögð áhersla á þau mál sem máli skipta.