„Braut engin lög“

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson kaupsýslumaður kveðst vera þess fullviss að hann hafi engin lög brotið í tengslum við kaup Sheik Al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi. Ólafur segist ekki eiga vona á öðru en að vönduð rannsókn muni leiða hið rétta í ljós. 

„Ég átti ekki hlut að hlutabréfakaupunum sjálfum og aldrei stóð til að ég hefði fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum,“ segir í yfirlýsingu sem Ólafur hefur sent frá sér í tengslum við málið. Hún er svohljóðandi:

„Vegna fréttaflutnings af kaupum Sheik Al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi vill undirritaður koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:
 
1.    Aðkoma mín að kaupum Sheik Al-Thani í Kaupþingi hefur áður komið fram. Mitt hlutverk var að hjálpa til við að koma viðskiptunum á og að vera milliliður í lánveitingum til Sheik Al-Thani. Ég átti ekki hlut að hlutabréfakaupunum sjálfum og aldrei stóð til að ég hefði fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum.
 
2.    Hlutabréfaeign mín í Kaupþingi er flestum kunnug og henni hefur aldrei verið leynt.  Ef ég hefði sjálfur fjárfest í hluta af þessum bréfum á móti Sheik Al-Thani, hefði ég ekki haft neina ástæðu til að leyna því eignarhaldi. Þvert á móti hefði ég verið stoltur að kynna slík viðskipti. Sú var hinsvegar ekki raunin.
 
3.    Sheik Al-Thani er í hópi öflugustu og virtustu fjárfesta heims. Samsæriskenningar um að hann hafi ætlað að taka þátt í einhvers konar sjónarspili gegn þóknun í tengslum við kaup á 5% hlut í Kaupþingi eru vægast sagt fráleitar.
 
4.    Ég sé ekki ástæðu til þess að ég tjái mig að öðru leyti um innihald tölvupósta eða annarra samskipta sem Lilja Steinþórsdóttir og Halldór Bjarkar Lúðvíksson kunna að hafa átt í janúar 2009 eða þá túlkun atburða sem þar er sett fram
 
5.    Ég þess fullviss að ég braut engin lög með aðkomu minni að þessu máli og á ekki von á öðru en að vönduð rannsókn leiði hið rétta í ljós í þeim efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert