Frumvarp um breytingar á ráðuneytum lagt fram

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra mbl.is/Árni Sæberg

 Lagt var fram  frumvarp til laga á Alþingi í kvöld þar sem mælt er fyrir um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Verði frumvarpið að lögum fækkar ráðuneytum úr 12 í 9. Um er að ræða stjórnarfrumvarp og er fyrsti flutningsmaður Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Breytingarnar fela í sér að innanríkisráðuneyti verður til við sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, velferðarráðuneyti við sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti við sameiningu iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Einnig er lagt til að heiti umhverfisráðuneytis verði breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. 

Um er að ræða breytingar í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 um stjórnkerfisumbætur.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert