Félagi í eigu útgerðarmannsins Jakobs Valgeirs Flosasonar, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gert að greiða Landsbankanum 17.923.930 svissneska franka, rúma tvo milljarða króna, kúlulán ásamt dráttarvöxtum. Lánið var nýtt í hlutabréfakaup á sínum tíma en ekkert hafði verið greitt af láninu.
Jakob Valgeir var hins vegar sýknaður af sjálfskuldaábyrgð þar sem það þótti sannað með vitnisburði starfsmanns bankans að sjálfskuldaábyrgð eiganda hefði fallið niður.
Hinn 17. júlí 2007 lánaði Landsbanki Íslands Áli ehf., svokallað fjölmyntalán að jafnvirði 600.000.000 króna í svissneskum frönkum. Samið var um að lánið skyldi vera til tveggja ára og greiðast „að fullu á næstu 2 árum með einni afborgun í lok lánstímans þann 10.07.2009. Vexti bæri að greiða á tólfmánaða fresti út lánstímann í fyrsta sinn þann 10.07.2008.
Þá var samið um að Áll greiddi bankanum breytilega vexti jafnháa LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,95% vaxtaálags. Í samningnum segir að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samkvæmt lánssamningnum hafi Áll sett bankanum að handveði hlutabréf í Jakobi Valgeiri ehf. að nafnvirði kr. 17.494.865,- með útgáfu handveðsyfirlýsingu. Þá segir í samningi að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samnings þess „tekst Jakob Valgeir Flosasoná hendur sjálfskuldarábyrgð á fullum efndum allra skuldbindinga skv. samningi þessum“.
Jakob Valgeir Flosason undirritaði samninginn fyrir hönd Áls ehf. og samþykki sitt sem sjálfskuldarábyrgðaraðili hinn 17. júlí 2007.
Hinn 17. ágúst 2007 lánaði Landsbanki Áli enn svokallað fjölmyntalán að jafnvirði 5.000.000 svissneskra franka. Samið var um að lánið skyldi vera með sömu kjörum og hið fyrra og sömu veð lögð fyrir láninu.
Landsbankinn, byggði sína kröfu á hendur Áli og Jakobi að Áll ehf., hafi ekki greitt lánin, hvorki á gjalddaga né síðar.
Áll ehf., byggði hins vegar mál sitt á því að fyrsta lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum. Nánast samhljóða lánasamningur, það er seinni samningurinn, tilgreini lánið í svissneskum frönkum.
Jakob Valgeir kvaðst einungis hafa grunnskólamenntun
Jakob Valgeir Flosason hélt því fram að Landsbankanum hafi orðið á mistök við gerð lánasamnings. Starfsmaður bankans hafi viðurkennt það í tölvupósti til lögmanns Jakobs Valgeirs.
Jakob Valgeir bar því við fyrir dómi að hann væri einungis með grunnskólamenntun. Hann hafi ekki lesið lánasamningana yfir heldu bara treyst að þeir væru „settir rétt upp“. Hann hafi treyst því að bankinn stæði rétt að þessu. Hann hafi treyst því að þegar bankinn tæki veð í hlutabréfunum félli sjálfskuldaábyrgð hans niður. Honum hafi ekki verið ljóst fyrr en ári síðar að af hálfu bankans væri talið að hann bæri enn sjálfskuldaábyrgð á lánunum. Honum hafi þó síðar verið tjáð að þetta væru mistök bankans, mistök í skjalagerð.
Ætlað til að kaupa hin og þessi hlutabréf
Þegar hann tók lánin kvaðst Jakob Valgeir eingöngu hafa haft samband við ákveðinn starfsmann hjá bankanum. Jakob Valgeir kvaðst hafa ætlað að nota peningana, sem teknir voru að láni, til að kaupa hin og þessi hlutabréf, einnig í aðrar fjárfestingar og það hafi hann gert. Rætt hafi verið um að hann tæki á sig sjálfskuldaábyrgð á meðan gengið yrði frá veðsetningu bréfanna. Hann hafi fallist á sjálfskuldaábyrgð þar til heimild til veðsetningar bréfanna bærist. Þetta hafi hann gert til að fá lánið strax greitt út.
Jakob Valgeir sagði að í fyrra tilvikinu hafi verið sett að veði hlutabréf, að nafnvirði 17.494.865 kr. í Jakobi Valgeiri ehf. Í síðara tilvikinu hafi verið sett að veði hlutabréf, að nafnvirði 3.731.615 kr. í Jakobi Valgeiri hf., og hafi hann ráðstafað fénu til að kaupa fleiri bréf í félaginu.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að allt bendi til þess að mistök hafi orðið við frágang lánsins og því beri að sýkna Jakob Valgeir af sjálfskuldaábyrgð eiganda.
Áttu ekki von á svo miklu falli krónunnar
Áll byggði á því að lánssamningarnir, sem hér um ræðir, séu ekki skuldbindandi, eða að víkja beri þeim til hliðar í heild eða að hluta til vegna brostinna forsendna. Í fyrsta lagi er vísað til þess Áll ehf. hafi ekki gert ráð fyrir né séð fyrir að krónan félli eins mikið og raun bar vitni. Félagið hafi mátt búast við einhverjum sveiflum á gengi krónunnar, en ekki eins miklum og urðu. Í öðru lagi hafi bankanum hlotið að vera kunnugt um að mikilvægt var fyrir Ál ehf. að krónan félli ekki eins mikið og hún gerði.
„Í þriðja lagi að ósanngjarnt sé að Áll ehf. „beri einn allan hallann af falli íslensku krónunnar sérstaklega í ljósi framferðis bankans á gjaldeyrismarkaðnum síðasta árið fyrir hrun. Það er ekki sanngjarnt að stefnandi hafi verið að lána í erlendri mynt á meðan hann var að stunda markaðsmisnotkun með gjaldmiðla í aðdraganda hrunsins.“
Ekki á valdi Landsbankans að stöðva fall krónunnar
Dómarinn fellst hins vegar ekki á þann rökstuðning forsvarsmanns Áls að hann hafi ekki búist við því að krónan félli eins mikið og hún gerði og að forsvarsmönnum bankans hafi verið kunnugt um að mikilvægt væri fyrir félagið að krónan félli ekki eins mikið og hún gerði, verður það ekki talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bankinn byggir á samningum aðila.
Svo virðist af gögnum málsins að forsvarsmaður bankans í viðskiptunum við Ál ehf. hafi á engan hátt ætlað að hlunnfara félagið heldur sýnt félaginu fullan trúnað. Ekki var á valdi Landsbanka Íslands hf. að stöðva fall íslensku krónunnar og ósannað er að bankinn hafi stundað markaðsmisnotkun á gjaldeyrismarkaði líkt og forsvarsmaður Áls hélt fram.
Jakob Valgeir var stjórnarformaður Stíms efh.
Jakob Valgeir greiddi hæstu opinberu gjöldin í umdæmi skattstjóra Vestfjarðaumdæmis á síðasta ári, rúmar 34,4 milljónir króna.
Jakob Valgeir var stjórnarformaður Stím ehf. en félagið var sett sérstaklega á fót til að kaupa bréf í Glitni og FL Group, stærsta eiganda Glitnis, fyrir tæpa 24,8 milljarða króna í nóvember 2007. Seljandi bréfanna var Glitnir sjálfur, sem lánaði Stím einnig 19,6 milljarða króna til kaupanna.
Fons stofnaði FS37 en breytti nafni síðar í Stím
23. október 2007 var félagið FS37 stofnað en það var í eigu Fons, félags þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristjánssonar. 14.
nóvember keypti FS37 hlutabréf í Glitni og FL Group af Glitni fyrir 24,8
milljarða. FS38 og Glitnir lánaðu FS37 90 prósent af kaupverðinu. 16. nóvember var haldinn hluthafafundur í FS38 þar sem stjórn félagsins
er kosin. Sama dag er nafni FS37 ehf. breytt í Stím ehf.
Samkvæmt lánabók Glitnis, sem birt var í Morgunblaðinu árið 2008 var Stím þriðji stærsti skuldari fyrirtækjasviðs Glitnis í lok árs 2007. Einu aðilarnir sem skulduðu meira voru FL Group (26,6 milljarðar), stærsti eigandi Glitnis á þeim tíma, og Exista(22,8 milljarðar), stærsti eigandi Kaupþings. Fons, sem átti upphaflega Stím, var í fimmta sæti með lánveitingar upp á 15,3 milljarða króna.