Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, kallaði frumvarp um stjórnlagaþing „sérstakt gæluverkefni hæstvirts forsætisráðherra“ í umræðum á þingi nú undir hádegi. Tók hann undir orð Þráins Bertelssonar, óháðs þingmanns, frá í gær að frumvarpið mætti bíða haustsins. Taldi hann að forgangsraða yrði málum á þinginu með öðrum hætti nú þegar styttist í þinglok.
Birgir kvað meira liggja á málum sem vörðuðu heimili og fyrirtæki í landinu en stjórnlagaþingi. Taldi hann óeðlilegt að frumvarp um stjórnlagaþing fengi þann forgang sem því er veittur.
Sagði hann enn mikinn ágreining um málið og ekki væri að sjá að einu sinni stjórnarþingmenn sýndu málinu mikinn áhuga á. Sagði hann í því samhengi að þingflokkur vinstri grænna hefði lítið haft sig í frammi í málinu. Afstaða flokksins lægi hreinlega ekki fyrir. Taldi hann að jafnvel gæti farið svo að málið verði afgreitt vegna þess að þingmönnum þætti það „skárra en ekkert.“ Sagði hann að þetta þættu honum ekki viðhlítandi vinnubrögð í málinu.