Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi að ríkisstjórnin ýtti kerfisbundið undir atvinnuleysi með skattahækkunum sínum. Nýsköpun væri hamlað og áhrifin væru letjandi fyrir fyrirtæki í landinu. Kvað hann þetta ef til vill ekki gert meðvitað en áhrifin væru ljós.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, stóð fyrir svörum og sagði ekki hægt hunsa hinn mikla vanda sem fyrir hendi væri. Taka þyrfti á honum með aðgerðum í ríkisfjármálunum, meðal annars skattahækkunum. Sagðist hann ekki gefa mikið fyrir þá hagfræði að hægt væri að sópa vandanum undir teppið.